Saturday, January 23, 2016

Þegar þörfin grípur mann...

Stundum grípur mig þörf til að setja eitthvað út í kosmósið, yfirleitt helst það í hendur við einhverjar aðstæður í lífinu þar sem breytingar eiga sér stað, annað hvort eitthvað sem ég hef valið að gera eða þegar eitthvað gerist og hefur áhrif á mig hvort sem ég vildi eða ekki. Í þetta sinn er það ég sem hef valið að velja nýja slóð í lífinu eins og svo oft áður. 

Það er auðvelt að líta á lífið eins og tré sem hefur margar greinar, stórar og smáar, hver grein og hver greinarendi er eitthvað nýtt til að upplifa. Einnig finnst mér mikilvægt að tréð stækki og fái fleiri greinar, til þess þarf maður að afla sér nýrrar lífsreynslu, reyna á mátt sjálfrar síns og auka við þekkinguna. Í þetta sinn er ég að prófa að fara á nýja grein, stóra grein sem hefur margar litlar greinar og skemmti mér vel við að uppgötva nýjar og spennandi greinar á trénu mínu. Ég hef verið að lesa mér svolítið til um mínímalískan lífsstíl og hef ákveðið að reyna að tileinka mér ýmislegt sem viðkemur mínímalískum lífsstíl. Þá munu einhverjir spyrja sig af hverju? Jú af því að mér finnst lítið orðið aðeins og kaótískt, flókið og farið að líða hraðar en mig langar. Mér finnst ég farin að berast með straumnum fremur en að synda á mínum eigin hraða og farin að missa stjórn á bæði sjálfri mér og aðstæðum mínum. Með því að tileinka mér mínímalískan lífsstíl held ég að ég geti reynt að ná meiri innri stjórn eða öllu heldur meiri innri ró, meiri tíma til að hugleiða, ígrunda og vera í núinu. 

Við hjónin höfum verið að skoða hvernig við getum náð meiri ró inni á heimilinu okkar og höfum verið dugleg að láta frá okkur hluti sem við þörfnumst ekki lengur. Nú standa yfir framkvæmdir á heimilinu og við ætlum að taka stofuna alveg í gegn ásamt svefnherberginu okkar og gera þar griðarstaði þar sem okkur líður vel, þar sem við getum slakað á án þess að vera með marga hluti sem trufla augað og skapa óreiðu. Ég er sannfærð um að þetta sé einmitt sú grein sem ég á að vera að skoða á þessum tímapunkti í lífinu og hlakka til að skoða hvert þetta leiðir mig.

Á sama tíma er kannski gaman að segja frá því að í janúar höfum við fjölskyldan verið á vegan mataræði. Við ákváðum eftir jólin að prófa að taka allar dýraafurðir úr mataræðinu okkar þennan mánuðinn. Við höfum kannski ekki upplifað nein kraftaverk en erum öll sammála um að nýja mataræðið sé ekki verra en það gamla og okkur líður öllum bara mjög vel. Embla er hins vegar ekki Vegan, hún borðar ennþá allan mat en borðar með okkur Vegan mat t.d. í kvöldmat. Ég persónulega upplifi talsverðan mun, mér finnst ég léttari á mér, meltingin er betri og það er einhver svona x tilfinning sem fylgir því að borða ekki dýraafurðir. Eins og staðan er í dag hugsa ég að ég haldi áfram að vera vegan hvað svo sem hinir í fjölskyldunni ákveða að gera um mánaðarmótin.